Innlent

Njótið veðursins meðan þið getið

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Íslendingar ættu að fara að fordæmi þessa herramanns og njóta útiverunnar meðan veðrið endist.
Íslendingar ættu að fara að fordæmi þessa herramanns og njóta útiverunnar meðan veðrið endist. Vísir/Eyþór
Blíðviðrið sem leikið hefur um íbúa höfuðborgarinnar undanfarna daga verður hvergi sjáanlegt um helgina. Því ætti fólk á sunnan- og vestanverðu landinu „að reyna að njóta veðursins sem er í boði er“ eins og veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands orðar það.

Gert er ráð fyrir breytilegri átt, þremur til átta metrum á sekúndu en austan fimm til tíu metrum syðst. Yfirleitt léttskýjað eða bjartviðri, en víða þokuloft við ströndina norðan- og austanlands fram eftir degi. Þá má gera ráð fyrir hita á bilinu 8 gráðum og allt upp í 19 gráður, hlýjast í uppsveitum suðvestantil.

Á meðan verður yfirleitt þurrt á Norðausturlandi og „ágætt veður þar,“ að sögn veðurfræðings. Síðan er útlit fyrir að það snúist til norðlægrar átta og fari að rigna fyrir norðan og þá kólnar nokkuð hratt.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag:

Austan 5-10 m/s með suðurströndinni, annars hæg breytileg átt. Sums staðar skýjað við sjávarsíðuna, en annars léttskýjað. Hiti 8 til 18 stig, hlýjast á V-landi, en svalast á Austfjörðum. 

Á föstudag:

Hæg breytileg átt og bjart með köflum A-til, en suðaustan 5-10 og dálítil væta V-lands. Hiti víða 10 til 16 stig. 

Á laugardag:

Suðaustan kaldi og rigning en yfirleitt þurrt NA-lands. Heldur svalara sunnan- og vestanlands. 

Á sunnudag:

Austlæg átt, heldur kólnandi veður og víða rigning með köflum. 

Á mánudag og þriðjudag:

Útlit fyrir norðlæga átt með rigningu og svölu veðri fyrir norðan, en lengst af þurrt og milt syðra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×