Erlent

Trump sagður hafa þakkað Putin í kaldhæðni

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/AFP
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, þakkaði Vladimir Putin, forseta Rússlands, fyrir að vísa hundruðum erindreka frá Rússlandi í kaldhæðni í gær. Þetta sagði Sarah Huckabee, talskona Hvíta hússins, í dag. Nærri því 24 klukkustundir eru liðnar frá því að Trump þakkaði Putin og féllu ummæli hans í mjög svo grýttan jarðveg í Bandaríkjunum og víðar.



Trump tjáði sig í gær í fyrsta sinn um það að Putin hefði þann 30. júlí skipað Bandaríkjunum að fækka erindrekum sínum í Rússlandi um 755.

„Ég vil þakka honum fyrir því við erum að reyna að draga úr launakostnaði og þess vegna er ég þakklátur honum fyrir að reka marga því núna verður launakostnaður okkar minni,“ sagði Trump í gær þegar hann var spurður út í viðbrögð sín af blaðamanni.

Sjá einnig: Þakkaði Putin fyrir að vísa erindrekum frá Rússlandi



Nú þegar starfa 1.200 erindrekar í sendiráðum og ræðimannsskrifstofum Bandaríkjanna í Rússlandi. Þeim þarf að fækka um 755 fyrir september. Talið er líklegt að margir rússneskir starfsmenn Bandaríkjanna verði reknir úr starfi.



Skipun Putin var gerð opinber eftir að Trump skrifaði undir lög um refsiaðgerðir gegn Rússlandi fyrir afskipti þeirra af forsetakosningunum í Bandaríkjunum í fyrra. Þá vísaði Barack Obama 35 rússneskum erindrekum frá Bandaríkjunum í desember í fyrra.

Þingnefndir og sérstakur saksóknari rannsaka nú afskipti Rússa af forsetakosningunum og mögulegt samstarf framboðs Trump með yfirvöldum í Rússlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×