Íslenski boltinn

Þegar Gummi Ben gabbaði FH-inga upp úr skónum án þess að koma við boltann | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valsmenn geta í kvöld sótt sigur í Kaplakrika eitthvað sem hefur ekki tekist hjá Hlíðarendaliðinu í tæp tíu ár eða síðan 23. september 2007.

Íslandsmeistarar FH taka þá á móti toppliði Vals í stórleik fjórtándu umferðar Pepsi-deildar karla en leikurinn hefst klukkan 19.15 og er í beinni á Stöð 2 Sport.

Valsmenn lögðu grunn að síðasta Íslandsmeistaratitli sínum með sigrinum í Krikanum fyrir tíu árum. Það er einmitt síðasti sigur Valsliðsins í Kaplakrika.

Fyrra mark Vals í leiknum er sérstaklega eftirminnilegt en það skoraði Baldur Aðalsteinsson og kom Val í 1-0 á 32. mínútu leiksins.

Helgi Sigurðsson átti vissulega stoðsendinguna á Baldur en Guðmundur Benediktsson átti mikinn þátt í þessu marki þrátt fyrir að koma aldrei við boltann.

Gummi Ben gabbaði nefnilega varnarmenn FH-inga upp úr skónum með því að láta boltann fara. Boltinn fór áfram til Baldurs sem skoraði gríðarlega mikilvægt mark.

Helgi Sigurðsson innsiglaði síðan sigurinn eftir laglega skyndisókn undir lok leiksins.

FH var fyrir þennan leik búið að vera á toppnum samfellt í 38 mánuði en Valsmenn tóku toppsætið af þeim með sigrinum og hrifsuðu svo Íslandsmeistaratitilinn til sín með 1-0 sigri á HK í lokaumferðinni sex dögum síðar.

Það má sjá þessi tvö mörk í spilaranum hér fyrir ofan.

Leikur FH og Vals hefst klukkan 19.15 í Kaplakrika og verður í beinni textalýsingu á Vísi. Útsending Stöð 2 Sport hefst síðan klukkan 19.00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×