Golf

Guðrún Brá náði einum besta árangri íslensks kylfings í sögu EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr Keili
Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr Keili GSÍmyndir
Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr Keili náði flottum árangri á Evrópumóti einstaklinga í kvennaflokki.

Guðrún Brá lék samtals á fimm höggum undir pari á fjórum hringjum á mótinu sem fram fór í Sviss. Á lokahringnum lék Guðrún Brá á 69 höggum eða -3 en hún fékk alls sex fugla á hringnum og þar af fjóra fugla á síðari 9 holunum.

Árangur Guðrúnar er einn sá besti sem íslenskur kylfingur hefur náð á þessu móti þar sem sterkustu áhugakylfingar Evrópu taka þátt.

Guðrún Brá rétt missti af Íslandsmeistaratitlinum um síðustu helgi en kom sterk til baka og spilaði mjög vel í Alpaloftinu.

Agathe Laisne frá Frakklandi varð Evrópumeistari á -8 en þar á eftir komu tveir kylfingar frá Sviss, Albane Valenzuela á -7 samtals og Morgane Metraux á -6 samtals.

Saga Traustadóttir úr GR og Ragnhildur Kristinsdóttir tóku líka þátt en náðu ekki að komast í gegnum niðurskurðinn.

Mótið fór fram í Sviss rétt norðan við borgina Lausanne en keppnisvöllurinn er í 850 metra hæð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×