Fótbolti

Freyr: Enginn með stjórn á þessum leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Freyr á hliðarlínunni í leiknum í dag.
Freyr á hliðarlínunni í leiknum í dag. vísir/getty
Landsliðsþjálfarinn Freyr Alexandersson var að sjálfsögðu ekki sáttur með tapið fyrir Sviss í Doetinchem í C-riðli Evrópumótsins í dag.

„Það er sárt að tapa. Þessi leikur var svolítið uppi í loft. Þessar tafir og svona,“ sagði Freyr í samtali við Eddu Sif Pálsdóttur á RÚV eftir leikinn.

„Þetta var skrítinn leikur. Það var enginn með stjórn á þessum leik, hann var úti um allt. Ég er ekki ánægður með það,“ bætti Freyr við en frammistaða rússneska dómarans, Anastasiu Pustovoitova var ekki til útflutnings.

Sviss er með frábæra leikmenn innan sinna raða eins og Lönu Dickenmann og Ramonu Bachmann sem skoruðu mörk liðsins.

„Það var margt sem við gátum gert betur. Í heildina var hugarfarið í lagi en einstaklingsframtök í liði andstæðinganna fóru illa með okkur,“ sagði Freyr sem var ekki sáttur með varnarleikinn í mörkunum sem Ísland fékk á sig.

„Eins og alltaf þegar lið fær á sig mörk var ýmislegt að. Þetta var ekki nógu gott og grundvallaratriði sem klikkuðu og á móti svona leikmönnum er þér refsað.“

Ísland á enn möguleika á að komast áfram þótt staðan sé erfið. Íslenska liðið þarf nú að treysta á að Frakkar vinni Austurríkismenn í kvöld.

„Við eigum ennþá möguleika. Það er leikur í kvöld og við sjáum til hvernig hann fer. Nú þurfum við að treysta á aðra og örlögin eru ekki lengur í okkar höndum. Það er staða sem ég vildi ekki vera í. Við jöfnum okkur í kvöld og mætum til Rotterdam til að vinna og vonandi eigum við ennþá möguleika þá,“ sagði Freyr.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×