Fótbolti

Harpa: Engin ástæða til að leggjast í þunglyndi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Harpa og markaskorarinn Fanndís Friðriksdóttir voru svekktar í leikslok.
Harpa og markaskorarinn Fanndís Friðriksdóttir voru svekktar í leikslok. vísir/getty
Harpa Þorsteinsdóttir kom inn á sem varamaður þegar Ísland tapaði 1-2 fyrir Sviss í C-riðli Evrópumótsins í dag. Hún átti erfitt með að leyna vonbrigðum sínum eftir leikinn.

„Að sjálfsögðu var þetta sárt. Við erum með lið til að vinna Sviss og vitum það. Við lögðum allt í þetta og þess vegna þetta sérstaklega svekkjandi. Það er kannski klisjukennt að segja en þetta er ekki að detta með okkur,“ sagði Harpa í samtali við Kolbein Tuma Daðason eftir leikinn.

„Ég er ótrúlega stolt af frammistöðunni í dag. Við þurfum bara að vera fljótar að loka þessum leik og horfa í úrslitaleikinn á móti Austurríki.“

Ísland hefur átt í vandræðum með að skora í undanförnum leikjum og Fanndís Friðriksdóttir braut ansi þykkan ís þegar hún skoraði eftir frábæra sendingu Dagnýjar Brynjarsdóttur á 33. mínútu.

„Við vorum aldrei neitt stressaðar yfir því að geta ekki skorað. Það er fullt af góðum framherjum í liðinu sem geta skorað. Við erum að spila betur með hverjum leiknum og ég hef ekki áhyggjur af því að það haldi ekki áfram,“ sagði Harpa.

Að hennar sögn ætlar íslenska liðið ekki að leggja árar í bát.

„Það er engin ástæða til að leggjast í þunglyndi. Við erum ótrúlega þakklátar fyrir stuðninginn og hvað margir eru að fylgjast með okkur. Við ætlum okkur áfram,“ sagði Harpa en til að það gerist verður Frakkland að vinna Austurríki í kvöld.


Tengdar fréttir

Freyr: Enginn með stjórn á þessum leik

Landsliðsþjálfarinn Freyr Alexandersson var að sjálfsögðu ekki sáttur með tapið fyrir Sviss í Doetinchem í C-riðli Evrópumótsins í dag.

Gunnhildur um áreksturinn: Ætlaði ekkert að fara útaf

Gunnhildur Yrsa var að vonum svekkt eftir 1-2 tap gegn Sviss í viðtali á Rúv eftir leik en hún ræddi meðal annars höfuðhöggið sem átti sér stað þegar hún lenti í samstuði við markvörð svissneska landsliðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×