Sport

Bryndís hækkaði sig um sjö sæti í 100 metra skriðsundi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bryndís Rún Hansen.
Bryndís Rún Hansen. Vísir/Getty
Bryndís Rún Hansen varð í 30. sæti í undanrásum í 100 metra skriðsundi á HM í sundi í Búdapest í morgun og komst því ekki í undanúrslitin.

Bryndís stóð sig vel þrátt fyrir að hafa ekki náð að bæta sig. Hún synti á 56,11 sekúndum en hennar besti tími í greininni er 55,98 sekúndur frá því á Smáþjóðaleikum á Íslandi árið 2015.

Bryndís var skráð inn með 37. besta tímann og hækkaði sig því um sjö sæti. Hún hefði þurft að synda hraðar en 54,49 sekúndur til að komast í undanúrslitin.

Íslandsmetið í 100 metra skriðsundi á Ragnheiður Ragnarsdóttir en hún synti á 55,66 sekúndum í Reykjanesbæ árið 2009.

Þremur stelpum frá Norðurlöndum tókst að synda sig inn í undanúrslitin. Sarah Sjöström frá Svíþjóð náð besta tímanum (53,01 sekúndur) og Pernille Blume frá Danmörku setti nýtt danskt met, 53,13 sekúndur, og náði með því öðrum besta tímanum. Hin sænska Michelle Coleman Svíþjóð var síðan með þrettánda besta tímann.

Sarah Sjöström á heimsmetið í greininni, en hún setti það í fyrsta spretti í 4x100 metra skriðsundi á mánudaginn þegar hún synti á 51,71 sekúndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×