Fótbolti

Ísland átti eitt skot á mark allt mótið í Hollandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fanndís Friðriksdóttir fagnar hér marki sínu á móti Sviss. Það reyndist eina skot Íslands á mótinu sem fór á mark andstæðingsins.
Fanndís Friðriksdóttir fagnar hér marki sínu á móti Sviss. Það reyndist eina skot Íslands á mótinu sem fór á mark andstæðingsins. Vísir/Getty
Sóknarleikur íslenska landsliðsins á EM í Hollandi skilaði aðeins einu skoti sem hitti á mark andstæðingsins. Það var mark Fanndísar Friðriksdóttur í 2-1 tapi Íslands gegn Sviss.

Ísland tapaði öllum þremur leikjum sínum á mótinu, þeim síðasta gegn Austurríki í Rotterdam í gærkvöldi.

Þegar opinber tölfræði leikjanna er skoðuð, upplýsingar sem má finna á heimasíðu mótsins, kemur í ljós að Ísland átti 21 skot í leikjunum þremur en aðeins eitt sem rataði á mark andstæðingsins.

Það þýðir einnig að markverðir andstæðinganna eru ekki með nein skráð varin skot í leikjunum gegn okkar stelpum.

Íslendingar sköpuðu sér þó hættuleg færi í leikjunum þremur, sér í lagi í fyrstu tveimur. Dagný fékk dauðafæri gegn Frökkum er hún skallaði rétt yfir markið á 37. mínútu og hún fékk einnig fínt skallafæri snemma í leiknum gegn Sviss.

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir átti einnig skalla yfir markið gegn Sviss og undir lokin stýrði Sara Björk Gunnarsdóttir skoti Öglu Maríu Albertsdóttur að marki en varnarmaður Sviss bjargaði á síðustu stundu. Tilraun Söru Bjarkar er þó ekki skráð sem skot á mark á heimasíðu UEFA, heldur skot sem er varið af varnarmanni.

Það var þó annað uppi á teningnum gegn Austurríki í gær en íslensku leikmennirnir náðu í raun ekki að skapa sér nein hættuleg færi í leiknum.

Ísland skoraði næstflest mörk allra liða í undankeppni mótsins en meiðsli settu stórt strik í undirbúning liðsins fyrir lokamótið í Hollandi, auk þess sem að Harpa Þorsteinsdóttir, markahæsti leikmaður Íslands í undankeppninni missti af síðustu leikjum keppninnar sem og stórum hluta undirbúningins þar sem hún var barnshafandi.

Þegar tölfræði Ísland er borin saman við önnur lið á mótinu kemur í ljós að Ísland á fæst skot á mark. Portúgal kemur næst með fjögur skot á mark og Skotland með fimm en bæði eiga eftir að spila lokaleik sinn í riðlakeppninni.

Skot Íslands á EM í Hollandi:

Ísland - Austurríki

Skot (á mark): 10-29 (0-16)

Ísland - Sviss

Skot (á mark): 7-7 (1-3)

Ísland - Frakkland

Skot (á mark): 4-21 (0-5)

Samtals

Skot Íslands (á mark): 21 (1)

Skot andstæðinga (á mark): 57 (24)


Tengdar fréttir

Dætur Evrópu númeri of litlar

Stelpurnar okkar kvöddu Evrópumótið í fótbolta í gærkvöldi með þriðja tapinu en þær lágu í valnum gegn Austurríki í Rotterdam, 3-0. Íslenska liðið var einfaldlega ekki nógu gott til að ná markmiðum sínum á þessu móti. Íslendingarnir heilluðu samt álfuna.

Freyr: Liðið höndlaði vonbrigðin eftir laugardaginn mjög illa

Freyr Alexandersson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, var afar ósáttur með frammistöðuna í 0-3 tapinu fyrir Austurríki í kvöld. Þetta var síðasti leikur Íslands á EM en liðið tapaði öllum þremur leikjum sínum á mótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×