Fótbolti

Dagný stóð við hliðina á samherja sínum sem fiskaði vítið: „Hún hatar ekkert leikaraskapinn“

Tómas Þór Þórðarson í Tilburg skrifar
Dagný var harðorð í garð samherja síns hjá Portland, Amandine Henry, sem fiskaði vítið. Henry er öllu hressari i bakgrunni.
Dagný var harðorð í garð samherja síns hjá Portland, Amandine Henry, sem fiskaði vítið. Henry er öllu hressari i bakgrunni. vísir/vilhelm
„Já, ég myndi segja að þetta hafi verið rán og allir sem horfðu á leikinn eru örugglega sammála því,“ sagði Dagný Brynjarsdóttir í viðtali við Vísi eftir tap Íslands gegn Hollandi á Evrópumótinu í Hollandi.

Ísland tapaði leiknum 1-0 eftir að Frakkar fengu vítaspyrnu undir lok leiksins.

Vítaspyrnudómurinn er mjög umdeildur, enda var engu síðra brot á Fanndísi Friðriksdóttur í fyrri hálfleik en engin vítaspyrna dæmd þá.

„Á vellinum þá virtist þetta hrikalega ódýrt víti. Þetta var liðsfélagi minn sem féll í teignum og ég veit að hún hatar ekkert leikaraskapinn þannig að þetta er gríðarlega svekkjandi,“ sagði Dagný.

Amandine Henry, liðsfélagi Dagnýjar hjá bandaríska liðinu Portland Thorns, stóð við hliðina á henni í viðtalinu eftir leikinn er Dagný vandaði samherja sínum ekki kveðjurnar fyrir vítafiskið.

„Ég ætla rétt að vona að við mætum þeim aftur, hvort sem er í úrslitaleiknum eða á leiðinni, og þá verða úrslitin vonandi með okkur,“ sagði Dagný bara í stað þess að valda usla á fjölmiðlasvæðinu.

Íslenska liðið stóð sig mjög vel í leiknum í dag og var ekki að sjá að franska liðið væri neitt sterkara en það íslenska.

„Mér fannst við spila vel, berjast vel, og ef það var eitthvað þá fengum við hættulegri færi. Við gerðum allt til að reyna að fá sigur út úr þessu og við hefðum auðveldlega getað nýtt eitthvað af þessum færum. Geggjað skallafæri sem ég fékk þarna í endann, 9 af hverjum 10 set ég inn en þetta féll ekki inn í dag.“

„Sérstaklega svekkjandi að fá allavega ekki eitt stig út úr þessu, mér fannst við eiga það skilið. Ég held að mótlæti styrki mann og við komum dýrvitlausar á móti Sviss.“


Tengdar fréttir

Sif: Ég trúði því ekki að hún væri að dæma víti

Sif Atladóttir átti frábæran leik í miðri vörn íslenska liðsins og var að vonum svekkt eftir að Frakkarnir náðu að tryggja sér sigur úr ódýrri vítaspyrnu í lokin. Sif tók undir það að henni liði eins og hún hafi verið rænd í þessum leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×