Fótbolti

Portúgalar tóku bronsið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ricardo Quaresma, André Silva og Adrien Silva fagna marki þess síðastnefnda.
Ricardo Quaresma, André Silva og Adrien Silva fagna marki þess síðastnefnda. vísir/getty
Portúgal bar sigurorð af Mexíkó, 2-1, í leiknum um bronsið í Álfukeppninni í fótbolta í dag.

Þrátt fyrir að leika án Cristianos Ronaldo, lenda undir og missa mann af velli með rautt spjald tókst Portúgölum að landa sigrinum.

Leikurinn í Moskvu í dag var afar fjörugur og mörkin hefðu hæglega getað orðið fleiri.

Á 16. mínútu fékk Portúgal vítaspyrnu. André Silva fór á punktinn en Guillermo Ochoa varði vel.

Staðan var markalaus í hálfleik en á 54. mínútu komust Mexíkóar yfir þegar Neto varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið mark.

Allt stefndi í mexíkóskan sigur en Pepe var á öðru máli. Þegar ein mínúta var komin fram yfir venjulegan leiktíma jafnaði hann metin eftir sendingu frá Ricardo Quaresma og því þurfti að framlengja.

Rétt fyrir lok fyrri hálfleiks framlengingarinnar fékk Portúgal aðra vítaspyrnu. Adrien Silva tók hana og skoraði af öryggi.

Strax í upphafi seinni hálfleiks framlengingarinnar fékk Portúgalinn Nelson Semedo sitt annað gula spjald og þar með rautt. Portúgalska liðið var þó bara einum færri í sex mínútur því á 112. mínútu fór Raúl Jiménez sömu leið og Samedo.

Fleiri urðu mörkin hins vegar ekki og Portúgalar fögnuðu sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×