Íslenski boltinn

Kristján Flóki tók mataræðið í gegn og stefndi á tíu mörk | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kristján Flóki Finnbogason, framherji FH, hefur verið einn besti leikmaður Pepsi-deildarinnar í fótbolta, raðað inn mörkum. Hann segist ekki ætla að yfirgefa Íslandsmeistarana í sumar.

Kristján Flóki er 22 ára og hefur skorað sjö mörk í deildinni í sumar. Erlend félög hafa sýnt honum áhuga en Hafnfirðingurinn segist ekki vera á förum. „Ekki eins og staðan er núna, nei,“ segir hann í viðtali í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Sóknarmaðurinn fór ungur að árum í akademíu FC Kaupmannahafnar en sneri aftur til FH fyrir tveimur árum. Erfiðlega gekk fyrsta árið en hann kom sterkur inn á síðust leiktíð og þá hefur hann sprungið út í sumar. Hvað breyttist í vetur?

„Fjölskyldan tók sig á í janúar. Við vorum ekki beint að borða neitt óhollt en við ákváðum að taka mataræðið aðeins í gegn. Það er í raun eina breytingin sem ég gerði í vetur,“ segir Kristján Flóki.

Hann er með markmiðin á hreinu: „Markmiðið á þessu tímabili er að skora tíu mörk. Svo eru fleiri markmið sem eru meira tengd liðinu sem eru að vinna titilinn og bikarinn og komast eins langt í Evrópu og hægt er,“ segir Kristján Flóki Finnbogason.

Alla fréttina úr kvöldfréttum Stöðvar 2 má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×