Tveir menn fórust í flugslysinu, flugstjóri og sjúkraflutningamaður. Sá eini sem lifði slysið af var flugmaðurinn en flugvélin var sjúkraflugvél Mýflugs, TF-MYX, eyðilagðist í slysinu.
Þegar TF-MYX var skammt frá Akureyrarflugvelli á slysdegi sá áhöfnin til flugvallarins og lauk blindflugi. Skömmu síðar óskaði áhöfnin eftir því við flugturninn að fljúga einn hring yfir bæinn og fékk það samþykkt en flugferðinni lauk með því að vélin brotlenti á akstursíþróttabraut við Hlíðarfjallsveg.
Skörp vinstri beygja framkvæmd í lítilli hæð
Í samantekt skýrslunnar, sem gefin er út á ensku, segir að tilgangur þess að fljúga yfir bæinn hafi verið að fljúga yfir akstursíþróttabrautina sem flugstjórinn þekkti. Þar sem flugvélin nálgaðist brautina tók hún skarpa vinstri beygju með þeim afleiðingum að hún brotlenti.
Rannsókn nefndarinnar leiddi í ljós að flug vélarinnar yfir akstursíþróttabrautina var illa skipulagt og ekki í samræmi við flugrekstrarhandbækur.
Beygjan var framkvæmd í svo lítilli hæð og var svo skörp að flugmennirnir misstu stjórn á vélinni og gátu ekki leiðrétt beygjuna með þeim afleiðingum að vélin brotlenti.
Það er mat Rannsóknarnefndar samgönguslysa að mannlegi þátturinn hafi spilað stórt hlutverk í slysinu. Ekki hafi verið nægilega góð samvinna á milli áhafnarinnar og flugið yfir akstursíþróttabrautinni ekki verið nægilega vel skipulagt. Þetta gerði það að verkum að áhöfnin gat ekki tekið réttar ákvarðanir í tæka tíð.
„Léttir að rannsókn sé lokið“
Mýflug sendi frá sér tilkynningu skömmu eftir að skýrslan var birt. Í henni segir:
Það er mikill léttir að rannsókn sé lokið. Félagið færir RNSA innilegar þakkir fyrir
þá miklu vinnu sem lögð hefur verið í rannsóknina.
Mýflug hefur frá upphafi lagt kapp á að vinna með RNSA og hefur félagið veitt alla
þá aðstoð sem talið hefur verið að gæti gagnast.
Tilgangurinn með flugslysarannsóknum er að koma í veg fyrir að slys endurtaki
sig. Við vonum að skýrslan reynist mikilvægur þáttur í að sjá til þess að aldrei
verði annar viðlíka atburður. Í því ljósi hvetjum við til ýtarlegrar skoðunar og
umfjöllunar um hana.
Á meðan á rannsókn stóð yfir hefur félagið, eftir bestu getu, litið í eigin barm.
Meðal annars með aðstoð utanaðkomandi aðila. Í því ferli hefur RNSA og
Samgöngustofu verið haldið upplýstum og þeim kynnt vinnan, sem og breytingar
sem af henni hafa leitt. Nú þegar skýrslan er komin munum við í samstarfi við
þessa sömu aðila sjá til þess að tillögum í öryggisátt verði fylgt í hvívetna.
Hér fyrir neðan má sjá myndband af slysinu sem fréttastofa Stöðvar 2 birti í janúar 2014.