Innlent

Spáir glimrandi grillveðri á laugardag

Birgir Olgeirsson skrifar
Spákort Veðurstofu Íslands fyrir laugardag.
Spákort Veðurstofu Íslands fyrir laugardag. vedur.is
Helgin er handan við hornið og því ekki úr vegi að líta til veðurs. Samkvæmt veðurfræðingi á Veðurstofu Íslands mun lægja smám saman í dag og léttir til um landið sunnanvert. Fremur svalt fyrir norað ne milt syðra.

Í nótt og á morgun léttir einnig til um landið norðanvert. Víða verður fínasta veður á morgun þótt að sums staðar geti þokan verið til ama við ströndina. Eins verða hitatölurnar á uppleið og útlitið um helgina með vænsta móti eftir fremur kalda daga.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á morgun:

Fremur hæg breytileg átt á morgun og víða léttskýjað, en sums staðar þokuloft við vesturströndina. Hiti 3 til 13 stig í dag, mildast syðst, en 7 til 15 á morgun.

Á laugardag:

Breytileg átt 3-8 m/s. Léttskýjað um mest allt land en líkur á þokubökkum austast. Hiti 7 til 17 stig, hlýjast suðvestantil, en svalast við A-ströndina.

Á sunnudag:

Austan og norðaustan 3-13 m/s, hvassast með suðurströndinni. Bjart N- og V-til, en annars skýjað og úrkomulítið. Hiti breytist lítið.

Á mánudag og þriðjudag:

Hæg austlæg eða breytileg átt. Skýjað við N- og A-ströndina, en annars bjartviðri. Milt í veðri.

Á miðvikudag:

Hæg vestlæg eða breytileg átt og skýjað með köflum. Áfram milt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×