Innlent

Flugmenn uppseldir á Íslandi

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Vignir Örn Gunnarsson, formaður Íslenska flugmannafélagsins.
Vignir Örn Gunnarsson, formaður Íslenska flugmannafélagsins.
Tæpur helmingur flugmanna WOW eru erlendir flugmenn sem fengnir eru í gegnum umboðsskrifstofu. Flestir eru frá Vestur-Evrópu en íslenskir kollegar þeirra eru einfaldlega uppseldir.

Kjör flugmanna WOW fara eftir kjarasamningum Íslenska flugmannafélagsins sem einungis starfsmenn WOW eru aðilar að. Kjör erlendu flugmannanna fara hins vegar eftir samningum þeirra við umboðsskrifstofur en formaður flugmannafélagsins, segir kjörin sambærileg.

Markmiðið er þó að ráða sem flesta inn á launaskrá. „Það er yfrlýst stefna, bæði stéttarfélagsins og WOW air, að sem flestir komi til stéttarfélagsins og á kjarasamning hjá okkur," segir Vignir Örn Gunnarsson, formaður Íslenska flugmannafélagsins.

Það gengur ágætlega og voru fyrstu flugmennirnir að týnast inn um áramótin. Sumir vilja hins vegar ekki fasta búsetu á Íslandi. Aðalatriðið hefur að sögn Vignis verið að fá mannskap til starfa til að halda í við gríðarlegan vöxt félagsins. Á einungis sex árum hefur WOW farið upp í það að reka þrettán vélar og eiga þær að verða 24 fyrir lok næsta árs. Er því von á enn frekari vöntun á flugmönnum.

„Það er viðvarandi flugmannaskortur. Flugskólarnir hafa ekki undan við að unga út nýjum flugmönnum fyrir bæði flugfélögin. WOW air er að vaxa gríðarlega og það þarf að fá mannskap til að fljúga þessum flugvélum. Og hann er bara ekki til á Íslandi. Sérstaklega reynslumiklir flugstjórar," segir Vignir.

„Flugmenn eru uppseldir. Því miður eða sem betur fer, það er mjög gott að vera flugmaður á Íslandi í dag."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×