Handbolti

Guðmundur að taka við landsliði Barein | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Guðmundur er mættur til Barein.
Guðmundur er mættur til Barein. vísir/getty
Guðmundur Guðmundsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari Íslands og Danmerkur í handbolta, er að taka við liði Barein og stýra því næstu mánuðina.

Guðmundur hefur verið án starfs síðan hann sagði upp hjá danska landsliðinu en hann gerði það að Ólympíumeistara í Ríó á síðasta ári. Í viðtali við íþróttadeild í síðustu viku sagðist hann vera kominn með nýtt starf og að hann myndi skrifa undir hjá nýjum vinnuveitanda í byrjun þessarar viku.

Handknattleikssamband Barein birti í kvöld myndband af Guðmundi mættum til landsins en þar er hann nýlentur eftir ferðalag frá Íslandi.

Mbl.is segist hafa heimildir fyrir því að um tímabundna ráðningu sé að ræða, til sex eða sjö mánaða. Guðmundi verður falið það að verkefni að stýra Barein í lokakeppni Asíumótsins í janúar 2018.

Barein varð í öðru sæti á Asíumótinu árið 2014 og 2016 en það beið lægri hlut í úrslitaleik á móti Katar í bæði skiptin.

Hér að neðan má sjá myndband af Guðmundi í flugstöðinni í Barein.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×