„Okkur hentar vel að vera í svona úrslitaleikjum alltaf, við sýndum það í bikarkeppninni og ég vona að þessi reynsla muni nýtast okkur vel í úrslitakeppninni í Olís-deildinni,“ sagði Anton Rúnarsson, leikmaður Vals við íþróttadeild 365 eftir leikinn en nú þarf HSÍ að stilla upp úrslitakeppninni í kringum undanúrslitaleiki Valsliðsins. Það er þétt dagskrá fram undan hjá Val.
„Þetta er mikið afrek fyrir strákana, félagið og handboltann á Íslandi og það geta allir verið stoltir,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson, annar þjálfari Vals, glaður í leikslok, og bætti við:
„Við erum með ansi laskað lið og það eru margir leikir fram undan ef við komust alla leið í úrslitin. Það verður mikill hausverkur að púsla þessu saman.“ Valur mætir Turda frá Rúmeníu í undanúrslitum.
Upplifa allan Balkanskagann
„Það verður glæsilegt að upplifa allan Balkanskagann, ég er búinn að fara til Serbíu, Svartfjallalands og er á leiðinni til Makedóníu með landsliðinu. Ég fer að fara að tala tungumálið og er öllum hnútum kunnugur í tískunni og tónlistinni þarna,“ sagði Óskar léttur við Íþróttadeild 365 í leikslok.

Ellefu ár voru liðin frá því að íslensk lið komst í undanúrslitin í Evrópukeppni og það voru alls liðin sextán ár síðan Ísland átti karlalið svo seint í keppninni.
Valur með tvö síðustu liðin
Kvennalið Vals og ÍBV áttu stærstu Evrópuævintýrin frá því að karlalið Hauka fór alla leið í undanúrslitin í EHF-bikarnum vorið 2001. Valskonur fóru svo langt í Áskorendakeppninni 2006 eftir sigur á svissneska liðinu Brühl í átta liða úrslitum. Valsliðið féll út á móti rúmensku liði í undanúrslitunum.
Tveimur árum fyrr fóru Eyjakonur jafnlangt í sömu keppni eftir sigur á króatísku liði í átta liða úrslitum. ÍBV datt síðan út í undanúrslitunum á móti verðandi meisturum Nürnberg frá Þýskalandi.
Haukarnir voru fyrir árangur Valsmanna um helgina eina karlaliðið sem hafði komið í undanúrslit í Evrópu á síðustu þremur áratugum. Haukarnir duttu þá út fyrir Metkovic Jambo frá Króatíu í undanúrslitunum 2001 en landar þeirra hjá Magdeburg, Alfreð Gíslason og Ólafur Stefánsson, hefndu fyrir það tap með því að vinna Króatana.
Tvö í undanúrslitum vorið 1985
Gullöld íslenskra liða í Evrópukeppninni var þó örugglega 1984-85 tímabilið þegar bæði FH (meistaraliða) og Víkingur (bikarhafa) komust í undanúrslit. FH-ingar áttu þar enga möguleika í verðandi meistara Metaloplastika sem voru langbestir í Evrópu á þessum tíma. Víkingar duttu út þrátt fyrir 20-13 sigur á Barcelona í heimaleiknum eftir ótrúlegan dómaraskandal í seinni leiknum á Spáni sem Börsungar unnu 22-12. Barcelona vann síðan úrslitaleikinn á svipaðan hátt.
Þróttarar náðu einnig einstökum árangri 1981-82 tímabilið þegar þeir fóru alla leið í undanúrslit Evrópukeppninnar í fyrstu tilraun sinni við Evrópukeppni.
Aðeins eitt lið komist í úrslitaleik
Valsmenn fóru alla leið í úrslitaleikinn vorið 1980 og það lið er enn þann dag í dag eina íslenska liðið sem hefur spilað til úrslita um Evrópumeistaratitilinn. Valsmenn slógu þá spænska liðið Atlético Madrid út úr undanúrslitum en steinlágu fyrir Grosswallstadt í úrslitaleiknum.
Nú verður spennandi að sjá hvort annað Valslið komist í úrslitaleik í Evrópukeppni. Eftir tæpa fjóra áratugi er kominn tími á að fá nýtt lið í klúbbinn.

