Alfreð Finnbogason, landsliðsframherji í fótbolta, segir það ekki útilokað að hann verði með strákunum okkar þegar Ísland mætir Kosóvó í undankeppni HM 2018 þann 24. mars.
Íslenska landsliðið er í þriðja sæti síns riðils eftir fjóra leiki með sjö stig, stigi á eftir Úkraínu og þremur stigum á eftir toppliði Króatíu. Leikurinn á móti Kosóvó sem fram fer í Albaníu er gríðarlega mikilvægur.
„Það er ekkert útilokað að ég verði með í landsleiknum. Ég þarf hins vegar fyrst og fremst að spila með mínu félagsliði fyrst, svo ég geti gefið kost á mér í landsliðið,“ segir Alfreð við Morgunblaðið í dag.
Alfreð var búinn að vera tæpur vegna meiðsla nær alla leiktíðina áður en hann fékk högg í sigurleik Íslands gegn Tyrklandi á síðasta ári en hann hefur ekki spilað mínútu af fótbolta síðan þá. Hann spilaði síðast fyrir Augsburg 30. september á móti RB Leipzig en liðin mætast einmitt í þýsku 1. deildinni í kvöld.
Íslenska liðið er í ákveðnum framherjavandræðum en auk Alfreðs er næstmarkahæsti leikmaður Íslands frá upphafi, Kolbeinn Sigþórsson, einnig meiddur og óvíst hvenær hann snýr aftur á fótboltavöllinn.

