Íslenski boltinn

"Ekki eins hræðilegt og ég hélt“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sérstakt dómaranámskeið fyrir konur fer fram í höfuðstöðvum KSÍ í kvöld. Þetta námskeið er liður í því að fjölga konum í dómarahópi KSÍ.

Aðeins tvær konur eru landsdómarar, Bríet Bragadóttir og Rúna Kristín Stefánsdóttir, en þær taka báðar til máls á námskeiðinu.

„Það verður farið yfir hvernig starf aðstoðardómarans er og allt í kringum það. Svo munum við Bríet tala við stelpurnar og segja hvaða leið við höfum farið,“ sagði Rúna í samtali við Hjört Hjartarson í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Rúna hefur starfað sem aðstoðardómari undanfarin ár, m.a. í Pepsi-deild karla.

„Það hefur gengið vel. Þetta var ekki eins  hræðilegt og ég hélt. Þetta er mjög gaman og krefjandi, þetta er sterkasta deildin,“ sagði Rúna sem fær reglulega að heyra það á línunni.

„Já, ég myndi segja það. Ég fæ enga miskunn. Þetta er bara hluti af þessu, enda á ég ekkert að fá að heyra minna. Ég er bara hluti af þessu.“

Rúna vill fá fleiri stelpur í dómarastéttina.

„Ég væri til í að einhver prófaði að fara í gegnum það sem ég hef gert. Ég hef fengið rosalega mikið út úr þessu, fullt af tækifærum og ferðast víða. Svo er þetta miklu skemmtilegra en fólk heldur,“ sagði Rúna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×