Hvernig er þessi leikur?
„Ég fékk Skúla Óskarsson aftur með mér, en hann gerði líka hinn leikinn. Leikurinn er í raun og veru smá stolinn frá leik sem heitir Ski or die sem er gamall Nintendo-leikur. Eða lúkkið á honum kemur þaðan og leikurinn sjálfur er Ski Free-eftirherma – leikurinn þar sem maður skíðar niður brekku og það kemur skrímsli og eltir mann. Það muna allir eftir þeim leik. Ég man að mér fannst þetta skrímsli geðveikt hræðandi þegar ég var lítill. Hjá okkur gerist hann í Hlíðarfjalli. Síðan er líka hægt að taka Eimskipsstökkið.
Bobby Breiðholt, sem hannaði umslagið fyrir Vagg og veltu, gerði upphafsskjáinn í leiknum og við erum með 8-bita útgáfur af klassískum metalsmellum í honum. Bráðum verður svo haldin keppni í Ski free-leiknum, þannig að ég mæli með að fólk fari að æfa sig – það verður flug norður, snjóbretti, hótel, miðar og allt fyrir þann sem nær „high-score“. Fólk getur fylgst með á Facebook-síðu AK extreme þar sem þetta verður tilkynnt.“

„Í menu-skjánum í leiknum, sem er eins og í Ski or die, er hægt að renna sér inn í dagskrána og skoða hana.
Við erum búnir að fjölga viðburðum á hátíðinni og þetta eru núna fjórir dagar. Þetta byrjar á fimmtudeginum og þá er „race“ í Hlíðarfjalli, á föstudeginum er „jib“-mót sem í þetta sinn verður í Listagilinu á sama stað og Eimskipsstökkið er á laugardeginum – en stökkið er okkar stærsti viðburður og verður sýnt í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport annað árið í röð. Þeir hjá Stöð 2 Sport töluðu um að þetta væri ein flottasta útsending sem þeir hafa sent út og það var bara tilraun, þannig að þetta verður enn flottara í ár. Síðan verður parkour-mót á sunnudeginum.
Tónleikadagskráin verður í Sjallanum núna, en við vorum alltaf með Græna hattinn fyrst þangað til við sprengdum hann utan af okkur. Í ár ætlum við að vera með rjómann af popptónlistarmönnum Íslands í Sjallanum og líka með dagskrá á Græna hattinum fyrir hinn hópinn sem nennir ekki endilega í partí-geðveikina í Sjallanum. Ég mæli með að kaupa miða fyrr en seinna því að í fyrra seldist upp og færri komust að en vildu.“
Þeir sem spila á AK Extreme eru Aron Can, Sturla Atlas, Úlfur Úlfur, GKR, Gauti, Alvia Islandia, Cyber, Alexander Jarl, Hildur, Ká Aká, sxsxsx. Miðasalan er hafin á miði.is. Leikinn má nálgast inn á vefsíðu AK Extreme hátíðarinnar - akx.is.