Erlent

Biðja Mexíkóa um að gæta varúðar vegna nýs raunveruleika

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Bandaríkjaforsetanum hefur verið mótmælt víða.
Bandaríkjaforsetanum hefur verið mótmælt víða. vísir/afp
Stjórnvöld í Mexíkó hafa ráðlagt þegnum sínum að gæta fyllstu varúðar vegna „nýs veruleika“ sem blasi við þeim í Bandaríkjunum. Utanríkisráðherra landsins sendi frá sér yfirlýsingu þess efnis eftir að mexíkóskri konu, sem búið hafði í Bandaríkjunum í rúm 20 ár, var vísað úr landi.

Konan, Guadalupe Garcia de Rayos, flutti til Bandaríkjanna 14 ára gömul og hefur búið þar og starfað síðan. Hún játaði að hafa árið 2009 framvísað fölsuðum skilríkjum til þess að sækja um vinnu, og var handtekin fjórum árum síðar.

Barack Obama, þáverandi Bandaríkjaforseti, heimilaði konunni hins vegar að vera áfram í landinu á grundvelli þess að hún var barn þegar hún kom til landsins. Garcia de Rayos var svo handtekin á miðvikudag og vísað úr landi – en börnin hennar urðu eftir hjá föður þeirra.

„Mál Garcia de Rayos undirstrikar þann nýja veruleika sem mexíkóska samfélagið upplifir nú í Bandaríkjunum vegna þessara hertu innflytjendareglna,“ segir utanríkisráðherrann í yfirlýsingu sinni og hvetur um leið alla til þess að hafa samband við næsta ræðismann, þurfi fólk á aðstoð að halda.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur heitið því að vísa ólöglegum innflytjendum úr landi, sem og að reisa múr á landamærum Mexíkó.


Tengdar fréttir

Bráðabirgðabann áfram á tilskipun Trump

Bandarískur áfrýjunardómstóll setti í kvöld bráðabirgðabann á umdeilda tilskipun Donalds Trump Bandaríkjaforseta, sem bannar fólki frá sjö löndum að ferðast til Bandaríkjanna.

Trump fullviss um sigur fyrir dómstólum

Donald Trump Bandaríkjaforseti segist fullviss um að ríkisstjórn sín muni vinna sigur þegar ferðabannið svokallaða verður tekið fyrir hjá dómstólum landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×