Handbolti

Aron Rafn öflugur í sigri Bietigheim

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Rafn varði ellefu skot.
Aron Rafn varði ellefu skot. vísir/epa
Aron Rafn Eðvarðsson, landsliðsmarkvörður í handbolta, átti góðan leik fyrir lið sitt Bietigheim þegar það lagði TuS Ferndorf, 28-23, í þýsku B-deildinni í handbolta í kvöld.

Aron Rafn varði ellefu skot fyrir heimamenn, þar af tvö vítaköst og var með 33 prósent hlutfallsmarkvörslu en Bietigheim komst með sigrinum upp í þriðja sæti deildarinnar. Þrjú efstu fara upp í efstu deild.

Fimm íslensk mörk litu dagsins ljós í sigri EHV Aue gegn Leuterhausen, 27-23, en þar skoraði Árni Þór Sigtryggsson tvö mörk og Sigtryggur Rúnarsson þrjú mörk. Aue er um miðja deild með 20 stig, ellefu stigum frá Bietigheim.

Ólafur Bjarki Ragnarsson var rólegur í liði Eisenach og skoraði aðeins eitt mark en liðið er liðið lagði Nordhorn á útivelli, 30-25. Eisenach er í sjöunda sæti þegar 21 umferð er lokið af 38 í deildinni. Það er fimm stigum frá þriðja sætinu.

Ragnar Jóhannsson og félagar hans í Hüttenberg töpuðu fyrir HSG Konstanz, 27-23, í kvöld þar sem Ragnar komst ekki á blað. Fannar Friðgeirsson skoraði tvö mörk fyrir Hamm-Westfalen sem tapaði einnig á útivelil, 23-21, fyrir Wilhelmshavener.

Hüttenberg er áfram í öðru sæti deildarinnar með 31 stig, fjórum stigum á eftir TuS N-Lübbecke en Fannar og félagar eru í 17. og fjórða neðsta sæti með fjórtán stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×