Fótbolti

Heimir kvíðinn í Las Vegas: „Verður á allan hátt erfiður leikur fyrir okkur“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Heimir Hallgrímsson er með smá kvíðahnút.
Heimir Hallgrímsson er með smá kvíðahnút. vísir/getty
„Ég verð að vera heiðarlegur og segja að ég er með smá kvíðatilfinningu fyrir þessum leik.“

Þetta segir Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari í fótbolta, í viðtali við Fótbolti.net í Las Vegas þar sem strákarnir okkar mæta Mexíkó í vináttulandsleik klukkan þrjú eftir miðnætti í nótt.

Heimir er með reynsluminnsta hópinn sem hefur verið valinn í stjórnartíð hans í Bandaríkjunum á meðan Mexíkóar mæta til leiks með mjög reynda menn og virklega öfluga spilara.

„Þetta er mjög óreyndur hópur sem við höfum og við það bætist tímamismunurinn og þá höfum við engan tíma í rauninni til undirbúnings. Mexíkóar eru með ógnarsterkt lið og geta stillt upp hrikalega reynslumiklu liði,“ segir Heimir.

Mexíkó tapar varla leik þessa dagana og virðist mæta í leikinn til að vinna hann og ekkert annað. Heimir hefur áður sagt að þetta er meira en bara leikur fyrir Mexíkó þar sem hann fer fram í Bandaríkjunum þar sem ræður ríkjum Donald Trump. Hann vill byggja vegg á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.

„Þeirra tölfræði í síðustu leikjum hefur verið gríðarlega góð. Þjálfari þeirra er búinn að tapa einum leik af síðustu 17 og það lýsir sér í því að hann mætir með sterkt lið á móti Íslandi. Þetta verður á allan hátt erfiður leikur fyrir okkur,“ segir Heimir Hallgrímsson.

Leikur Íslands og Mexíkó verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD klukkan 03.00 í nótt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×