Handbolti

Fram vann Gróttu örugglega og Stjarnan sótti sigur til Eyja

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Ragnheiður skoraði 7 mörk fyrir Fram í dag.
Ragnheiður skoraði 7 mörk fyrir Fram í dag. vísir/eyþór
Fram lagði Gróttu 24-19 á útivelli í Olís deild kvenna í handbolta í dag og Stjarnan gerði góða ferð til Eyja þar sem liðið lagði ÍBV 33-31.

Topplið Fram var tveimur mörkum yfir í hálfleik 15-13 og var með örugga forystu allan seinni hálfleikinn þó Grótta væri alltaf aðeins einum góðum kafla frá því að komast inn í leikinn.

Ragnheiður Júlíusdóttir og Steinunn Björnsdóttir skoruðu flest mörk Fram, 7 hvor. Sigurbjörg Jóhannsdóttir skoraði 4 mörk.

Anna Úrsúla Guðmundsdóttir skoraði 5 mörk fyrir Gróttu og Sunna María Einarsdóttir og Þórey Anna Ásgeirsdóttir 4 mörk hvor.

Fram er á toppi deildarinnar með 23 stig en Grótta er í sjötta sæti með 8 stig.

Í Vestmannaeyjum var Stjarnan 20-15 yfir í hálfeik og landaði mikilvægum sigri, 33-31 eins og áður segir. Stjarnan er í öðru sæti, fjórum stigum á eftir Fram en ÍBV er í fimmta sæti með 10 stig.

Rakel Dögg Bragadóttir fór á kostum fyrir Stjörnuna og skoraði 12 mörk. Elena Birgisdóttir skoraði 6 og Brynhildur Bergmann Kjartansdóttir 5.

Karólína Bæhrenz Lárudóttir, Ester Óskarsdóttir og Sandra Erlingsdóttir skoruðu 6 mörk hver fyrir ÍBV og Telma Silva Amado 5.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×