Ásgeir Örn, sem hefur verið lykilmaður líkt og Aron um árabil, meiddist í síðasta leik fyrir HM-fríið með liði sínu Nimes og voru þeir báðir prófaðir á æfingu strákanna okkar í gær. Ekki er bara óljóst hvort þeir fari með á HM heldur líka hvort þeir verði leikfærir á æfingamóti í Danmörku sem hefst á fimmtudaginn. Þar mætir Ísland liðum Dana, Ungverja og Egypta.
Vantar skýrari svör
„Því miður höfum við ekki fengið skýrari svör en það, að við þurfum að prófa þá á æfingu í kvöld [gærkvöld] og sjá hver staðan er. Mér finnst ekki ólíklegt [að þeir fari með til Danmerkur] ekki nema að það komi í ljós að þeir eigi of langt í land. Þá erum við kannski ekki bara að afskrifa þá með Danmörku heldur líka HM í Frakklandi,“ segir Geir.
Það þarf ekkert að fara í felur með það, að verði Aron Pálmarsson ekki með verður áfallið gríðarlegt. Geir segist ekki ætla að bíða fram á leikdag með að fá svör við því hvort Hafnfirðingurinn verði með og því er nauðsynlegt að undirbúa lífið án hans þótt Geir sé bjartsýnn á að Aron verði með. Hann og liðið eru svo sannarlega í kapphlaupi við tímann.
„Því miður þurfum við að taka þetta svona skref fyrir skref. Það er ekki eins og Aron sé nýliði í þessu og viti ekki út á hvað þetta allt gengur og því verður hann fljótur að aðlagast ef hann kemur inn. Það mun samt ráðast tólfta janúar [á leikdegi gegn Spáni á HM] hvort hann getur spilað eða ekki,“ segir Geir.

Strákarnir okkar æfðu tvisvar sinnum í gær. Þeir voru á styrktaræfingu undir stjórn Ragnars Óskarssonar fyrir hádegi og svo var handboltaæfing í gærkvöldi. Geir sagði á blaðamannafundi HSÍ í gær þar sem næstu verkefni voru kynnt fyrir blaðamönnum að standið á liðinu væri gott fyrir utan meiðslin. Hann sagðist ætla að taka átján leikmenn með sér til Danmerkur á æfingamótið en hópurinn stendur enn þá í 23 sem er alltof mikið. „Ég vildi vera búinn að skera hann enn frekar niður nú þegar, en það er ekki hægt vegna meiðslanna,“ segir Geir.
Tvær af vonarstjörnum íslenska liðsins; línumaðurinn Arnar Freyr Arnarsson og hægri skyttan Ómar Ingi Magnússon, verða ekki allan tímann með A-landsliðinu í Danmörku því kraftar þeirra verða nýttir í síðasta leik U21 árs landsliðsins í Serbíu 8. janúar. Lærisveinar Ólafs Stefánssonar og Sigursteins Arndal spila þar þrjá leiki í undankeppni EM. Arnar og Ómar mæta í síðasta leikinn gegn Serbíu.
Ásgeir bjartsýnn
Meiðsli Ásgeirs Arnar eru ný en hann fékk högg á hnéð í síðasta leik Nimes fyrir HM-fríið. Alvöru óheppni það. Hann hefur ekkert æft síðan hann kom heim, eða ekki fyrr en í gærkvöldi.
„Eins og staðan er núna er ég bjartsýnn en við sjáum bara til hvernig gengur á æfingunum. Ég er ekkert búinn að láta reyna á þetta. Maður er samt tilbúinn til að gera allt. Ef ég get hjálpað þá geri ég það, en svo er það þjálfarans að meta hvort ég hjálpi til.“