Innlent

Stormur í vændum: Fólk beðið um að fylgjast vel með spám

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Stormi er spáð víða um land í nótt og á morgun.
Stormi er spáð víða um land í nótt og á morgun. vísir/ernir
Miklar sviptingar eru í veðri og biður Veðurstofan fólk því um að fylgjast vel með spám og færð áður en farið er á milli landshluta. Gert er ráð fyrir stormi víða um land í nót og á morgun, og búist er við mikilli rigningu sunnan- og vestantil á landinu seint í nótt og í fyrramálið.

Suðlæg átt, 8-15 metrar á sekúndu, og dálítil rigning eða slydda í dag en skýjað með köflum um landið norðaustanvert. Vaxandi vindur og úrkomumeira í kvöld og hlýnar.

Þá verður sunnan- og suðvestan 15-23 seint í nótt og í fyrramálið og talsverð eða mikil rigning sunnan- og vestantil, en úrkomulítið norðaustantil. Snýst í suðvestan hvassviðri eða storm með éljum og kólnandi veðri vestantil á landinu í fyrramálið, en austantil upp úr hádegi og styttir upp austanlands. Hiti um og undir frostmarki annað kvöld.

Færð á vegum

Á vef Vegagerðarinnar segir að með hláku og sunnan eða suðsuðaustan stormi í fyrramálið megi gera ráð fyrir að snarpar vindhviður verði undir Hafnarfjalli, allt að 30-35 metrar á sekúndu, frá klukkan 7 til 9. Það eigi sömuleiðis við um á Borgarfjarðarbraut norðan Hafnarfjalls. Í fljótum og á Siglufjarðarvegi verða snarpir byljir allt að 40 metrar á sekúndu frá um klukkan 9 og til hádegis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×