Golf

Fyndnasta en um leið örugglega kaldasta golfhögg ársins | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/instagram/golfgrinders/
Golf er sumaríþrótt fyrir flesta kylfinga en þó ekki alla. Einn sem var ekki sammála því að menn ættu að hvíla kylfurnar yfir háveturinn ákvað að storka vetri konungi. Það fór þó ekki nógu vel því hann endaði hringinn sinn blautur og kaldur.

Golf yfir vetrarmánuðina getur boðið upp á nýjar aðstæður fyrir kylfinga og um leið búið til erfiðar ákvarðanir þegar menn reyna allt til að sleppa við víti.

Kylfingurinn í myndbandinu hér fyrir neðan var staðráðinn að bjarga sér úr erfiðri stöðu og sleppa við víti eftir að hann missti kúluna af braut og úr á frosið vatn.

Það fór hinsvegar ekki alveg eins og hann hafði ætlað. Kappinn lét vissulega vaða en hann hitti ekki kúluna og steinlá síðan á ísnum.

Ísinn var ekki þykkari en það að kylfingurinn óheppni braut hann með þessari hörðu lendingu og fór í kjölfarið á bólakaf í ískalt vatnið. Það má sjá myndbandið hér fyrir neðan.









Þar sem að hann hitti ekki kúluna og hún datt síðan ofan í vatnið með honum þá þurfti hann hvort sem er að taka á sig víti. Hvort að hann treysti sér að spila áfram eftir volkið er önnur saga.

Úr varð afar fyndið myndband sem rataði inn á golfgrinders instagram-síðunni. Það fylgir ekki alveg sögunni hvað varð um greyið manninn. Hann fékk að minnsta kosti kvef en slapp vonandi við lungabólgu eða eitthvað þeim mun verra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×