Handbolti

Bjarki Már hélt upp á nýja samninginn með sigri

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bjarki Már skrifaði undir nýjan tveggja ára samning við Füchse Berlin í dag.
Bjarki Már skrifaði undir nýjan tveggja ára samning við Füchse Berlin í dag. vísir/afp
Bjarki Már Elísson hélt upp á nýjan samning við Füchse Berlin með sigri á Göppingen, 31-26, í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld.

Fyrr í dag skrifaði Bjarki Már undir nýjan tveggja ára samning við Berlínarrefina sem hann hefur leikið með frá því í fyrra.

Bjarki Már skoraði tvö úr fimm skotum í leiknum í kvöld. Göppingen hélt í við Füchse Berlin í fyrri hálfleik en í þeim seinni voru heimamenn mun sterkari aðilinn og unnu fimm marka sigur, 31-26.

Þetta var annar sigur Berlínarrefanna í jafn mörgum leikjum undir stjórn Velimir Petkovic sem tók við þjálfarastarfinu af Erlingi Richardssyni sem var rekinn í síðustu viku.

Füchse Berlin er í 4. sæti deildarinnar með 26 stig. Í sætinu fyrir neðan er Hannover-Burgdorf sem bar sigurorð af Gummersbach í kvöld, 29-26.

Rúnar Kárason var í góðum gír í liði Hannover og skoraði fimm mörk úr 10 skotum. Aðeins danski landsliðsmaðurinn Casper U. Mortensen skoraði fleiri mörk fyrir Hannover í kvöld, eða 12 talsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×