Handbolti

Aron og félagar jólameistarar í Danmörku

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron tók við Aalborg fyrir tímabilið og hefur gert góða hluti með liðið.
Aron tók við Aalborg fyrir tímabilið og hefur gert góða hluti með liðið. vísir/getty
Aron Kristjánsson og lærisveinar hans í Aalborg eru jólameistarar í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta.

Aalborg vann sex marka útisigur á Tönder, 22-28, í kvöld. Liðið fer því með tveggja stiga forskot á toppnum inn í fríið sem gert verður á keppni í dönsku deildinni vegna HM í Frakklandi.

Stefán Rafn Sigurmannsson skoraði eitt mark fyrir Aalborg en Arnór Atlason lék ekki með liðinu í kvöld.

Ómar Ingi Magnússon skoraði níu mörk fyrir Århus sem laut í lægra haldi fyrir GOG, 33-27. Þetta var þriðja tap Århus í síðustu fjórum leikjum en liðið er í 9. sæti deildarinnar með 14 stig.

Ómar Ingi skoraði þrjú mörk úr sex skotum utan af velli og nýtti öll sex vítin sín. Róbert Gunnarsson skoraði eitt mark fyrir Århus en Sigvaldi Guðjónsson komst ekki á blað.

Randers batt enda á fjögurra leikja taphrinu þegar liðið vann óvæntan sigur á Skjern á heimavelli, 31-27.

Viggó Kristjánsson skoraði eitt mark fyrir Randers og Arnór Freyr Stefánsson varði eitt vítakast í markinu. Tandri Már Konráðsson skoraði eitt mark fyrir Skjern.

Eftir sex sigra í röð töpuðu Vignir Svavarsson og félagar í Team Tvis Holstebro fyrir Ribe-Esbjerg, 30-23. Vignir, sem hefur spilað frábærlega undanfarnar vikur, skoraði eitt mark í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×