Innlent

Vindhviður farið yfir 30 metra í Reykjavík

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Það var ekki beinlínis blíða sem tók á móti þessum ferðamönnum í dag.
Það var ekki beinlínis blíða sem tók á móti þessum ferðamönnum í dag. vísir/vilhelm
Óveðrið er nú að ná hámarki á suðvesturhorninu en búist er við að draga muni verulega úr vindi um klukkan 14 í dag. Það mun þá fikra sig norður og ná hámarki þar síðdegis.

Helga Ívarsdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að vindhviður í Reykjavík hafi náð allt að þrjátíu metrum á sekúndu í dag.

„Veðrið er í hámarki núna hérna suðvestanlands og vindhviður hafa farið yfir þrjátíu metra, en það var á Reykjavíkurflugvelli, og líka á Reykjanesbrautinni,“ segir Helga í samtali við Vísi og bætir við að veðrið sé líklega verst á norðanverðu Snæfellsnesi.

Sjá einnig:Fylgstu með veðrinu á gagnvirku korti

Hún segir að draga fari nokkuð ört úr vindi á suðvesturhorninu á milli klukkan 14 og 15. „Þá fer að hvessa fyrir norðan og nær hámarki síðdegis. Það fer svo á norðausturland undir kvöld og þá erum við komin í mun hægari suðvestanátt. Svo bætir aftur í vind og á morgun má búast við suðaustanstormi og éljagangi.“

Á morgun verður hægari vindur en éljagangur. „Það verður blint og verður leiðinlegt að því leytinu til. Það verður byljóttara, svo það verður betra á milli, en jafnvel verra í éljunum. Svo er að koma sunnan hvassviðri og stormur á fimmtudag. Veðrið verður ekki eins slæmt og í dag en svipað,“ segir Helga.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×