Innlent

Hætta á svifryksmengun um áramótin

Samúel Karl Ólason skrifar
„Fyrsti dagur ársins getur því orðið fyrsti svifryksdagur ársins vegna flugeldanna og veðurskilyrða.“
„Fyrsti dagur ársins getur því orðið fyrsti svifryksdagur ársins vegna flugeldanna og veðurskilyrða.“ Vísir/Pjetur
Líkur eru á því að svifryksmengun verði yfir heilsuverndarmörkum á fyrstu klukkustundum nýs árs. Þá bæði vegna veðurskilyrða og magns innfluttra flugelda. Útlit er fyrir hægum vindi og engri úrkomu á gamlárskvöld.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Þar kemur einnig fram að töluvert meira magn af flugeldum hafi verið flutt inn til landsins núna samanborið við síðasta ár. Alls voru flutt inn 622 tonn af flugeldum og er það 118 tonnum meira en í fyrra.

„Fyrsti dagur ársins getur því orðið fyrsti svifryksdagur ársins vegna flugeldanna og veðurskilyrða. Svifryk fór níu sinnum yfir heilsuverndarmörk í Reykjavík á árinu 2016. Heilsuverndarmörkin á sólarhring eru 50 míkrógrömm á rúmmetra,“ segir í tilkynningunni.

Hægt er að fylgjast með styrk svifryks á þjónustusíðu borgarinnar um loftgæði en þar má sjá staðsetningu loftgæðamælistöðva í Reykjavík.“

Þá eru íbúar borgarinnar hvattir til þess að láta hjálpa til við að taka saman flugeldaleifar sem falla til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×