Erlent

Joe Biden útilokar ekki að bjóða sig fram gegn Trump í næstu kosningum

Anton Egilsson skrifar
Joe Biden lætur af störfum sem varaforseti Bandaríkjanna í janúar á næsta ári.
Joe Biden lætur af störfum sem varaforseti Bandaríkjanna í janúar á næsta ári. Vísir/GETTY
Joe Biden, fráfarandi varaforseti Bandaríkjanna, útilokar ekki að bjóða sig fram gegn Donald Trump í forsetakosningunum eftir fjögur ár. CNN greinir frá þessu.

„Hver veit hvar við verðum eftir tvö ár þegar fólk fer að velta fyrir sér næstu skrefum“ sagði Biden í viðtali við CNN.

Biden sem hefur verið varaforseti Bandaríkjanna frá árinu 2009 er 74 ára núna. Myndi hann bjóða sig fram yrði hann langelsti forseti Bandaríkjanna til að taka við embætti. Hann telur að það þurfi ekki endilega að vera vandamál.

„Aldurinn gæti bæði verið vandamál eða ekki. Það veltur allt saman á heilsufari mínu.“  

Hann segir að þó að opinberum störfum hans ljúki í janúar á næsta ári þá sé hann hvergi á förum.

„Eins og eftir hverjar forsetakosningar þegar flokkurinn tapar þá er enginn einn forystumaður innan flokksins. Það eru raddir sem munu láta til sín taka og vonandi mun ég hafa rödd áfram innan flokksins. Ég er ekki að fara neitt, alls ekki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×