Sport

Strákarnir bættu landsmetið um þrjár og hálfa sekúndu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Davíð Hildiberg Aðalsteinsson, Viktor Máni Vilbergsson, Kristinn Þórarinsson og Aron Örn Stefánsson.
Davíð Hildiberg Aðalsteinsson, Viktor Máni Vilbergsson, Kristinn Þórarinsson og Aron Örn Stefánsson. Mynd/Sundsamband Íslands
Íslenska karlasveitin endaði í 15. sæti í 4 x 100 metra fjórsundi karla á HM í Windsor í Kanada.

Strákarnir syntu á 3:39,48 mínútum og bættu tveggja ára landsmet um þrjár og hálfa sekúndu. Gamla metið var sund  upp á 3:43.16 mínútu á HM í Doha í desember 2014.

Íslensku sveitina skipuðu þeir Davíð Hildiberg Aðalsteinsson, Viktor Máni Vilbergsson, Kristinn Þórarinsson og Aron Örn Stefánsson. Til þess að komast inn í úrslitariðil hefði sveitin þurft að synda á 3:27,47 mínútum.

Sundið hjá strákunum var einnig mun hraðara en Íslandmetið en það á sveit ÍRB frá því í síðasta mánuði. Davíð Hildiberg Aðalsteinsson synti bæði þessi sund og á því þátt í báðum metunum í dag.

Skömmu fyrir boðsundið hafði Kristinn Þórarinsson synt 200 metra baksund á 2:02,14 mínútum sem var meira en fjórum sekúndum frá hans besta en dugar honum í 40. sæti í greininni af 54 keppendum.

Íslandsmetið í 200 metra baksundi á Örn Arnarson síðan á EM25 á Spáni árið 2000 en Örn synti þá á 1:52,90 mínútum. Til samanburðar þá var síðasti tími inn í úrslitasundið á HM sund upp á 1:51,92 mínútur.

Þetta var flott sund hjá strákunum sem þar með hafa allir lokið keppni á HM25.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×