Handbolti

Refirnir staðfesta brottrekstur Erlings og kynna nýjan þjálfara til leiks

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Erlingur Richardsson er atvinnulaus.
Erlingur Richardsson er atvinnulaus. vísir/getty
Eins og greint var frá í dag er þýska 1. deildar liðið Füchse Berlín búið að segja Erlingi Richardssyni upp störfum sem þjálfara liðsins. Félagið sjálft hefur nú staðfest þessar fréttir á heimasíðu sinni.

Fram kemur á vef Refanna að þetta hafi verið niðurstaðan eftir ítarlega greiningu á stöðu liðsins sem er í fjórða sæti í deildinni en Erlingur gerði Füchse að heimsmeisturum félagsliða annað árið í röð í byrjun leiktíðar.

„Við þökkum Erlingi fyrir hans störf í Berlín. Við óskum honum velfarnaðar í framtíðinni sem þjálfari og vonum að hann nái langt,“ segir Bob Hanning, framkvæmdastjóri Füchse Berlín, í yfirlýsingu Berlínarrefanna.

Haft er eftir Erlingi: „Ég þakka Berlínarrefunum fyrir þetta einstaka tækifæri að fá að sanna mig í deild þessa bestu. Ég mun aldrei gleyma heimsmeistaratitlunum tveimur og þeim árangri sem við náðum. Ég óska Refunum alls hins besta í framtíðinni.“

Eftirmaður Erlings verður ekki Íslendingur en Erlingur tók við af Degi Sigurðssyni og hafa Refirnir því ekkert annað þekkt en íslenskan þjálfara undanfarin sex ár.

Füchse Berlín er búið að ráða júgóslavneska Þjóðverjann Velimir Petkovic til starfa sem þjálfara liðsins. Hann þjálfaði síðast Eisenach í efstu tveimur deildum þýska boltans þar sem hornamaðurinn Bjarki Már Elísson spilaði undir hans stjórn. Bjarki Már er einn af lykilmönnum Refanna í dag og hittir því fyrir sinn gamla þjálfara.

Petkovic gerði Göppingen að Evrópumeisturum félagsliða 2011 og 2012 og var þjálfari árins í Þýskalandi árið 2005.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×