Handbolti

Appelsínugula handboltabyltingin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hollendingar fagna á EM.
Hollendingar fagna á EM. vísir/afp
Holland hefur í gegnum tíðina ekki verið þekkt fyrir afrek sín á handboltavellinum. Þangað til nú. Appelsínugula handboltabyltingin er hafin.

Á síðustu tveimur árum hefur hollenska kvennalandsliðið skipað sér í hóp þeirra bestu í heiminum. Holland endaði í 7. sæti á EM 2014 og komst svo alla leið í úrslit á HM 2015. Í úrslitaleiknum reyndust norsku stelpurnar hans Þóris Hergeirssonar númeri of stórar og unnu 31-23 sigur.

Holland fylgdi silfrinu á HM í fyrra eftir með því að enda í 4. sæti á Ólympíuleikunum í Ríó í ágúst. Hollenska liðið hikstaði í riðlakeppninni á Ólympíuleikunum en rúllaði svo yfir heimaliðið, Brasilíu, í 8-liða úrslitum áður en það tapaði með minnsta mun fyrir Frökkum í undanúrslitunum. Í bronsleiknum steinlá Holland svo fyrir Noregi og þurfti því að sætta sig við 4. sætið.

Aðeins fjórum mánuðum síðar er hollenska liðið komið í undanúrslit á EM í Svíþjóð, á þriðja stórmótinu í röð. Andstæðingarnir að þessu sinni eru Danir en í boði er sæti í úrslitaleiknum á sunnudaginn.

Holland tapaði fyrir Þýskalandi, 30-27, í fyrsta leik sínum á EM en hefur síðan unnið fimm leiki í röð og sýnt góða takta. Ekkert lið hefur til að mynda skorað meira á EM en Holland (172 mörk). Varnarleikurinn er líka sterkur og markvörðurinn Tess Wester er öflug.

Þetta skemmtilega hollenska lið er í yngri kantinum. Stór hluti þess eru stelpur á aldrinum 23-24 ára sem áttu góðu gengi að fagna á stórmótum yngri landsliða fyrir nokkrum árum. Holland varð í 3. sæti á HM unglinga 2010 og 2. sæti á EM unglinga ári síðar.

Í þessum hópi eru leikmenn eins og Lois Abbingh, Estevana Polman, Angela Malestein og áðurnefnd Tess Wester. Þær spiluðu lengi saman í yngri landsliðunum og skína núna skært á stóra sviðinu. Auk þessarar kynslóðar eru í burðarhlutverkum aðeins eldri leikmenn á borð við línumanninn Yvette Broch, leikstjórnandann Nycke Groot og örvhentu skyttuna Lauru van der Heijden. Þær tvær fyrrnefndu spila báðar með hinu geysisterka ungverska félagsliði Györi ETO, sem tapaði í úrslitum Meistaradeildar Evrópu í vor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×