Erlent

Trump ræddi við forseta Taívan og Kínverjar munu tjúllast

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Getty
Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, ræddi í dag við Tsai Ing-wen, forseta Taívan í síma. Það er í fyrsta sinn sem forseti eða verðandi forseti Bandaríkjanna ræðir beint við leiðtoga Taívan frá árinu 1979.

Kínverjar hafa gert tilkall til Taívans allt frá árinu 1949 þegar leiðtogar lýðveldissinna í Kína flúðu þangað undan kommúnistum og stofnuðu þar ríki, sem þeir kölluðu, og kalla raunar enn, Lýðveldið Kína. Afar grunnt hefur verið á því góða á milli ríkjanna allar götur síðan en samskiptin hafa þó batnað allra síðustu ár.

Árið 1972 tóku Bandaríkin upp stefnu sem nefnist „Eitt Kína“. Það var gert eftir fund Richard Nixon og Mao. Sendiráði Bandaríkjanna í Taívan var lokað árið 1979. Bandaríkin hafa þó alla tíð síðan átt í nánum óopinberum samskiptum við yfirvöld í Taipei.

Símtal Trump og Ing-wen mun að öllum líkindum reita Kínverja til reiði, en þeir hafa ekki tjáð sig um málið enn. Samband Bandaríkjanna og Kína hefur beðið verulega hnekki á undanförnum mánuðum vegna deilna í Suður-Kínahafi. Þá hefur Trump ítrekað skammast yfir yfirvöldum í Kína í kosningabaráttunni í ár.

Ekki liggur fyrir hvort að símtalið sé til marks um stefnubreytingu í forsetatíð Trump. Teymi Trump segir forsetann verðandi og Ing-wen hafa rætt um „náið efnahagslegt, pólitískt og hernaðarlegt samband Taívan og Bandaríkjanna“.

Samkvæmt Reuters fréttaveitunni hefur símtalið vakið upp spurningar um hvort að Trump samskiptum við Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna varðandi samskipti sín við aðra þjóðarleiðtoga. Starfsmenn Hvíta hússins segjast ekki hafa vitað af símtalinu fyrr en eftir á. Þó hefur talsmaður Barack Obama ítrekað að Bandaríkin standi við „Eitt Kína“ stefnuna.

Seeker daily útskýrir deiluna á milli Kína og Taívan.

Tengdar fréttir

Kínverjar senda Bandaríkjunum tóninn

Þann 12. júlí mun Alþjóðlegi hafréttardómstóllinn í Hauge fella úrskurð í máli Filippseyja gegn Kína vegna Suður-Kínahafs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×