Erlent

Trump fundaði með Gore um loftslagsmál

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Al Gore í Trump Tower fyrr í dag.
Al Gore í Trump Tower fyrr í dag. Vísir/EPA
Al Gore, fyrrum varaforseti Bandaríkjanna og aðgerðarsinni, fundaði í dag með Donald Trump, verðandi forseta Bandaríkjanna og dóttur hans Ivönku Trump, um aðgerðir í loftslagsmálum.

Gore sagði að á fundinum hafi verið einlægur vilji til að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Hann sagði einnig að fundurinn hefði verið áhugaverður og að hann vonaðist til að halda viðræðunum áfram.

Fundurinn kann að koma fólki á óvart en í kosningabaráttunni kallaði Trump loftlagsbreytingar af mannavöldum blekkingu. Þá sagði talsmaður Trump í síðustu viku að fundur milli verðandi forsetans og Gore væri ekki á dagskrá. Ivanka Trump virðist þó vilja gera loftslagsbreytingar að baráttumáli sínu.

Ivanka er ásamt tveimur systkinum sínum í teyminu sem undirbýr valdaskiptin í janúar en óljóst er hvert hlutverk hennar verði í ríkisstjórn föður síns. Áður hefur komið fram að börn Trump muni taka við viðskiptaveldi hans á meðan hann situr í embætti. Ivanka er þó, að sögn miðla vestanhafs, í íbúðarleit í Washington DC. og hafa margir velt því fyrir sér hvort hún muni gegna lykilhlutverki í stjórn föður síns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×