Erlent

Trump ætlar að „yfirgefa viðskiptaheiminn með öllu“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Vill einbeita sér að forsetaembættinu.
Vill einbeita sér að forsetaembættinu. Vísir/Getty
Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna ætlar sér að „yfirgefa viðskiptaheiminn með öllu“ til þess að einbeita sér að forsetaembættinu. 

Þetta kemur fram á Twitter-síðu hins verðandi forseta. Þar kemur fram að hann muni kynna nánari tilhögun á blaðamannafundi þann 15. desember ásamt börnum sínum.

Trump hefur hingað til gefið lítið fyrir gagnrýni þess efnis að víðfeðmt viðskiptaveldi hans muni skapa hagsmunaárekstra þegar hann tekur við embætti forseta. Trump stundar viðskipti í um 20 löndum víða um heim.

Óttast sumir að Trump muni beita áhrifum sínum sem forseti til þess að beina viðskiptum að sínum eigin fyrirtækjum. Greint hefur verið frá því að erindrekar erlendra ríkja sæki nú í nýtt hótel Trump í Washington.

Þá hefur einnig verið greint frá því að Trump hafi þrýst á Nigel Farage að beita sér fyrir því að koma í veg fyrir að vindorkuver yrði reist í Skotlandi vegna þess að það myndi skyggja á útsýnið frá golfvelli Trump þar í landi.

Trump hefur hingað til sagt að hann muni láta börnin sín sjá um rekstur Trump-veldisins en óvíst er hvort að það sem hann muni tilkynna í desember sé einhver breyting frá því.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×