Ísland mætir Króatíu á morgun í Zagreb í fjórðu leikviku undankeppni HM 2018 en liðin eru í fyrsta og öðru sæti I-riðils með sjö stig eftir þrjá leiki. Það lið sem hefur sigur á Maksimir-vellinum verður í efsta sætinu fram á nýtt ár.
Strákarnir okkar eru í meiðslavandræðum í framlínunni en hvorki Kolbeinn Sigþórsson né Alfreð Finnbogason verða með. Kolbeinn, sem er næst markahæsti leikmaður íslenska landsliðsins frá upphafi, hefur ekkert verið með í undankeppninni en Alfreð meiddist í sigurleiknum gegn Tyrklandi og hefur ekkert spilað síðan.
Til að bæta gráu ofan á svart þá meiddist Björn Bergmann Sigurðarson sem spilaði sína fyrstu landsleiki í fimm ár gegn Finnlandi og Tyrklandi í síðasta mánuði.
Jón Daði Böðvarsson mun alltaf byrja í framlínunni en hvort Viðar Örn Kjartansson fái tækifærið við hlið hans eða einhver af miðjumönnunum; Jóhann Berg, Birkir Bjarnason eða Gylfi Þór Sigurðsson, verða færðir fram á eftir að koma í ljós.
Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari, er búinn að ákveða hvaða tveir leikmenn byrja frammi en hópurinn fær væntanlega að vita það í kvöld og fótboltaáhugamenn 75 mínútum fyrir leik á morgun.
Gylfi Þór Sigurðsson spilaði mikið frammi til að byrja með undir stjórn Lars Lagerbäck og Heimis Hallgrímssonar en eftir seinni hálfleikinn gegn Sviss í undankeppni HM 2014 fullmótaðist byrjunarlið Íslands og Gylfi hefur verið á miðjunni með Aroni síðan. Og þar vill hann vera.
„Það er ekkert að því að spila frammi. Mín uppáhaldsstaða er meira inni á miðjusvæðinu,“ segir Gylfi Þór í viðtali við fótbolti.net í Parma þar sem landsliðið æfði í vikunni en það heldur til Zagreb í dag. Hann er ekkert alltof spenntur fyrir því að spila frammi.
„Það hefur gengið vel með landsliðinu að spila á miðjunni. Heimir er með sínar hugmyndir og hann veit hvað hann er að gera. Hvort sem ég mun spila á kantinum, miðjunni eða frammi er ég nokkuð sáttur. Ég veit að Heimir velur það sem er best fyrir liðið,“ segir Gylfi Þór Sigurðsson.
