Fótbolti

Byrjunarliðið á Möltu: Tíu breytingar frá Zagreb

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Viðar Örn Kjartansson er í byrjunarliðinu.
Viðar Örn Kjartansson er í byrjunarliðinu. vísir/getty
Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari í fótbolta, gerir tíu breytingar á byrjunarliðinu sem mætir Möltu í vináttuleik í kvöld frá liðinu sem hóf leik gegn Króatíu í Zagreb á laugardaginn.

Birkir Már Sævarsson er eini leikmaðurinn sem byrjar í kvöld sem var einnig í byrjunarliðinu í tapleiknum gegn Króötum í Zagreb en hann og Ari Freyr Skúlason, sem missti af leiknum gegn Króatíu, eru einu hefðbundnu byrjunarliðsmennirnir í kvöld.

Ingvar Jónsson kemur í markið fyrir Hannes Þór Halldórsson og Kópavogsmennirnir Hólmar Örn Eyjólfsson og Sverrir Ingi Ingason standa vaktina í hjarta varnarinnar fyrir þá Kára Árnason og Ragnar Sigurðsson.

Viðar Örn Kjartansson fær langþráð tækifæri í framlínunni og spilar þar ásamt Elíasi Má Ómarssyni en Arnór Smárason og Arnór Ingvi Traustason eru köntunum. Ólafur Ingi Skúlason og Rúnar Már Sigurjónsson leysa af á miðjunni. Ólafur Ingi ber fyrirliðabandið í dag.

Leikurinn gegn Möltu er síðasti landsleikur ársins hjá strákunum okkar en hann er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD og hefst útsendingin klukkan 17.50.

Byrjunarlið Íslands (4-4-2): Ingvar Jónsson; Birkir Már Sævarsson, Hólmar Örn Eyjólfsson, Sverrir Ingi Ingason, Ari Freyr Skúlason; Arnór Smárason, Ólafur Ingi Skúlason, Rúnar Már Sigurjónsson, Arnór Ingvi Traustason; Elías Már Ómarsson, Viðar Örn Kjartansson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×