Enski boltinn

Jósef Kristinn samdi við Stjörnuna

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jósef Kristinn kominn í blátt.
Jósef Kristinn kominn í blátt. mynd/stjarnan
Jósef Kristinn Jósefsson er genginn í raðir Stjörnunnar en frá þessu greinir Garðabæjarliðið á samfélagsmiðlum. Jósef kemur til Stjörnunnar frá uppeldisfélagi sínu Grindavík en hann samdi til þriggja ára.

Jósef Kristinn var lykilmaður í liði Grindavíkur sem hafnaði í 2. sæti Inkasso-deildarinnar í sumar en hann hefur ákveðið að fylgja uppeldisfélaginu ekki upp í Pepsi-deildina heldur söðla um.

Þessi 27 ára gamli vinstri bakvörður þreytti frumraun sína með Grindavík árið 2006 í efstu deild en hann fór í atvinnumennsku til Búlgaríu áður en hann kom aftur heim.

Hann hefur bara spilað með Grindavík hér á landi og á að baki 186 leiki og 16 mörk fyrir uppeldisfélagið í efstu tveimur deildum Íslandsmótsins.

Jósef Kristinn er þriðji leikmaðurinn sem Stjarnan fær til sín en áður voru mættir í Garðabæinn markvörðurinn Haraldur Björnsson frá Lilleström í Noregi og miðvörðurinn Óttar Bjarni Guðmundsson frá Leikni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×