Körfubolti

Sannkölluð "Magic-byrjun“ hjá Russell Westbrook

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Russell Westbrook.
Russell Westbrook.
Russell Westbrook fer á kostum með Oklahoma City Thunder í fyrstu leikjum NBA-deildarinnar í körfubolta eins og kannski flestir bjuggust við.

Brotthvarf Kevin Durant þýddi að Westbrook fékk allt Thunder-liðið á herðarnar og kappinn hefur ekki valdið neinum vonbrigðum í fyrstu þremur leikjunum.

Westbrook afrekaði það í nótt sem hafi ekki gerst í NBA-deildinni síðan að Magic Johnson náði því 1982-83 tímabilið.

Russell Westbrook var með 33 stig, 12 fráköst og 16 stoðsendingar í 113-96 sigri Oklahoma City Thunder á Los Angeles Lakers. Þetta var önnur þrenna Westbrook á tímabilinu en liðið hefur aðeins spilað þrjá leiki.

Síðastur til að ná tveimur þrennum í fyrstu þremur leikjunum var Magic Johnson með Los Angeles Lakers tímabilið 1982-83 en Johnson náði því tvisvar á ferlinum. Aðrir til að ná þessu í sögu NBA eru þeir Jerry Lucas og Oscar Robertson (tvisvar).

Westbrook er hinsvegar einstakur í NBA-sögunni með því að ná að minnsta kosti 100 stigum, 30 fráköstum og 30 stoðsendingum í fyrstu þremur leikjunum.

Meðaltöl Russell Westbrook í fyrstu þremur leikjunum eru 38,6 stig, 12,3 fráköst og 11,6 stoðsendingar. Oscar Robertson er sá eini sem hefur verið með þrennu að meðaltali en hann náði því 1961-62. Hvort Westbrook nái að ógna þeirri tölfræði á eftir að koma í ljós.

Russell Westbrook var með átján þrennur á síðasta tímabili sem var það mesta síðan að Magic Johnson náði sama fjölda þrenna tímabilið 1981-82.



Fyrstu þrír leikir Russell Westbrook á 2016-17 tímabilinu:

103-97 sigur á Philadelphia 76ers

32 stig, 12 fráköst, 9 stoðsendingar

113-110 sigur á Phoenix Suns

51 stig, 13 fráköst, 10 stoðsendingar

113-96 sigur á Los Angeles Lakers

33 stig, 12 fráköst, 16 stoðsendingar



Fyrstu þrír leikir Magic Johnson á 1982-83 tímabilinu

132-117 tap fyrir Golden State Warriors

22 stig, 10 fráköst, 10 stoðsendingar

135-134 sigur á Denver Nuggets

17 stig, 15 fráköst, 13 stoðsendingar

131-108 sigur á Denver Nuggets

15 stig, 8 fráköst, 9 stoðsendingar

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×