Southgate gerði engu betur en forverar sínir í gærkvöldi þegar England náði aðeins markalausu jafntefli gegn Slóveníu ytra í undankeppni HM 2018. Liðin skildu jöfn, markalaus, og var það meira og minna Joe Hart að þakka að England fékk stig í leiknum.
Enska liðið er í fínni stöðu samt sem áður með sjö stig eftir þrjá leiki en það vann Slóvakíu ytra og Möltu heima áður en kom að jafnteflinu í gærkvöldi.
„Hvað varðar stóra takmarkið að komast á HM þá héldum við liðinu á réttri braut en í raun og veru tók ég við algjörum vandræðum og þarf bara að stýra skútunni á rétta braut,“ sagði Southgate eftir leikinn.
„Við stöndum í þakkarskuld við markvörðinn okkar fyrir að tryggja okkur þetta stig. Hann er alltaf bestur þegar hann er svona rólegur og yfirvegaður. Hann var virkilega góður í leiknum,“ sagði Gareth Southgate.