„Þetta leit ágætlega út á á laugardeginum og ég var ekkert sérstaklega áhyggjufullur þó maður tæki engu sem gefnu. Svo allt í einu, þegar kominn var sunnudagur og klukkan orðin ellefu, þá komu rúturnar upp að Háskólabíói og birtist mikill fjöldi fólks sem ég hef aldrei séð áður þann tíma sem ég hef starfað í flokknum,“ sagði Sigmundur Davíð í viðtali Í bítinu á Bylgjunni í morgun en hlusta má á viðtalið í heild sinni hér að ofan.
Ýmsir Framsóknarmenn hafa rætt um að svindlað hafi verið í formannskjörinu og Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar í gær að aðdragandinn að kosningunum hafi vakið upp vondar tilfinningar. Sigmundur vill þó ekki ganga svo langt að svindlað hafi verið en segir að margt hafi verið öðruvísi en æskilegt gæti talist.

Mjög ósáttur með niðurstöðuna
Sigmundur Davíð sagði einnig að hann og Sigurður Ingi hefðu enn ekki talað saman eftir úrslit kosninganna. Aðspurður hvort andaði köldu á milli hans og Sigurðar Inga svaraði hann:
„Já, það er það náttúrulega, ég skal alveg viðurkenna það en í pólitík verða menn að láta sig hafa það að vinna saman.“
Segir Sigmundur að hann hafi ef til vill verið full værukær í aðdraganda kosninganna og ekki beðið stuðningsmenn sína sérstaklega um að mæta á kjörþingið. Hann hafi ekki búist við slag um formannsembættið.
„Menn bjuggust ekki við slag á meðan annnarstaðar hafði verið fyllt mjög vel á lista með fólki sem var kannski ekki í öllum tilvikum virkir flokksmenn og tilkynnt um framboðið tveimur klukkustundum eftir að framboðsfrestur rann út,“ segir sagði Sigmundur sem stefnir ótrauður á það að leiða lista Framsókarflokksins í Norðausturkjördæmi í komandi kosningum. Ekki hafi hvarflað að honum að yfirgefa flokkinn eftir úrslit helgarinnar.
„Nei, ég var mjög ósáttur við þessa niðurstöðu en það var ekki einu sinni valkostir í mínum huga að yfirgefa fólkið í kjördæminu sem búið er að styðja mig mjög vel. Ég hef skyldum að gegna þetta við þetta fólk sem ég ætla að standa undir.“