Ríkissaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur þremur karlmönnum á fertugsaldri sem grunaðir eru um sérstaklega hættulega líkamsárás og frelssviptingu gegn pari við verslunarmiðstöðina Grímsbæ í Fossvogi í Reykjavík í júlí 2014 eða fyrir rúmlega tveimur árum.
Þremenningarnir eru sakaðir um að hafa veist að parinu, karlmanni og konu á fimmtugs- og sextugsaldri, með því að hafa slegið þau ítrekað í andlitið með krepptum hnefa. Þá eru þeir sagðir hafa tekið utan um háls konunnar og hert að.
Sjá einnig: Klukkustund í greipum handrukkara
Því næst eru mennirnir grunaðir um að hafa þvingað fólkið inn í bifreið, en konunni tókst að flýja út um glugga bifreiðarinnar. Þeir hafi ekið með karlmanninn í Garðabæ, haldið honum föngnum í allt að fjörutíu mínútur, og veist að honum.
Einn þremenninganna er sagður hafa slegið manninn með kúbeini í rist hægri fótar, höfuð og líkama, á meðan annar sló hann ítrekað með krepptum hnefa í líkama og höfuð. Að því loknu ekið með manninn í Hafnarfjörð.
![](https://www.visir.is/i/5F413F7C806338922DD37A318DE9F8F51BB856A4DAF96426D432F3FD4470E630_390x0.jpg)
Tveir mannanna, Alvar Óskarsson, og Jónas Árni Lúðvíksson, hafa báðir hlotið þunga dóma. Þeir voru báðir dæmdir fyrir aðild að umfangsmestu fíkniefnamálum sem upp hafa komið hér á landi. Pólstjörnumálið í tilfelli Alvars og Papeyjar-málið í tilfelli Jónasar.
Alvar Óskarsson hlaut sjö ára fangelsisdóm árið 2008 í Pólstjörnumálinu en hann, ásamt fimm öðrum mönnum, var dæmdur fyrir að flytja um fjörutíu kíló af fíkniefnum til landsins með skútu til Fáskrúðsfjarðar.
Jónas Árni Lúðvíksson var dæmdur í fimm ára fangelsi vegna Papeyjarmálsins árið 2009. Var hann sakfelldur fyrir að hafa reynt að smygla hingað til lands rúmlega hundrað kílóum af fíkniefnum.