Fótbolti

Jafnt í fjörugum leik á Westfalen

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Borussia Dortmund og Real Madrid skildu jöfn, 2-2, í hörkuleik í F-riðli Meistaradeildar Evrópu í kvöld.

André Schürrle tryggði Dortmund stig þegar hann jafnaði metin með frábæru skoti þremur mínútum fyrir leikslok.

Real Madrid komst tvisvar yfir í leiknum en náði ekki að landa sigri. Jafnteflið þýðir samt að Evrópumeistararnir eru ósigraðir í 23 leikjum í röð í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu.

Leikurinn á Westfalenstadion var mjög fjörugur og bæði lið áttu sína spretti.

Cristiano Ronaldo kom Real Madrid í 0-1 á 17. mínútu með sínu 98. marki í Meistaradeildinni.

Á markamínútunni, þeirri fertugustuogþriðju, jafnaði markahrókurinn Pierre-Emerick Aubameyang metin fyrir Dortmund eftir mistök Keylor Navas í marki Real Madrid.

Staðan var 1-1 í hálfleik og fram á 68. mínútu þegar franski miðvörðurinn Raphael Värane kom Real Madrid aftur yfir með skoti af stuttu færi eftir að Karim Benzema skaut í stöngina.

En Schürrle sá til þess að Dortmund fékk stig þegar hann skoraði á 87. mínútu eins og áður sagði.

Bæði lið eru með fjögur stig eftir fyrstu tvær umferðirnar í F-riðli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×