Innlent

Veðurstofan varar við úrhelli: Lægðirnar koma hver af annarri

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það var aðeins byrjað að rigna á Akureyri í morgun.
Það var aðeins byrjað að rigna á Akureyri í morgun. vísir
Veðurstofan varar við mikilli rigningu á Norðurlandi, Ströndum og norðanverðum Vestfjörðum í dag. Vegna úrhellisins er aukin skriðu-og flóðahætta á þessum slóðum.

Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að veðrið fari nú að taka á sig æ meiri haustblæ þar sem lægðirnar verða dýpri og koma nú hver af annarri með tilheyrandi vindum og rigningu. Hiti helst þó enn um sinn ágætur miðað við árstíma.

„Í dag fara öflug samskil vestur yfir landið og rignir víða talsvert, en reikna má með úrhellisrigningu á Norðurlandi og Ströndum eftir hádegi. Dregur síðan talsvert úr vindi og vætu í nótt og á morgun,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur eru annars þessar:

Norðlæg átt 8-18 metrar á sekúndu, hvassast á annesjum norðan til. Víða rigning, en mikil rigning norðan til á landinu. Fer að draga úr vindi og úrkomu norðaustan til í kvöld, en norðvestan til í nótt. Vestan 10-15 metrar á sekúndu nyrst á landinu á morgun og áfram rigning, en annars mun hægari og skúrir. Lægir víða og styttir upp annað kvöld. Hiti 5 til 13 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×