Íslenski boltinn

Ólafur: Förum til Eyja á þriðjudag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals.
Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals. Vísir
Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, segir að hans menn fengu fleiri færi til að vinna FH í dag en öfugt. Liðin skildu jöfn, 1-1, en með sigri hefði FH tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn.

„Við fengum betri færi til að vinna leikinn og eigum að landa svona leik. En það gekk ekki,“ sagði Ólafur sem vildi sjá meiri dug í sínum mönnum.

„Ég held að við þorum ekki að fara í leikinn og vinna hann. Við gátum tekið skynsamlegri ákvarðanir á þeirra vallarhelmingi og menn vildu frekar reyna að gera eitthvað sjálfir en að spila boltanum. Við vorum smeykir.“

Ólafur breytti byrjunarliði sínu nokkuð í dag frá 3-0 tapleiknum gegn Breiðabliki og fékk það sem hann átti von á frá FH-ingum.

„Ég hélt reyndar að hann myndi fara í 4-3-3 en FH var í 4-4-2. Það eru svo sem engin leyndarmál enda er fótboltinn orðinn þannig að við vitum allt um öll lið. Og þau vita allt um okkur. Þetta er því bara spurning um dagsform leikmanna.“

„Mér fannst þetta reyndar frábær leikur tveggja frábærra liða. Ég hefði gjarnan viljað fá meira úr honum,“ segir Ólafur sem mætir ÍBV í Vestmannaeyjum í næsta leik, á sunnudag.

„Ætli við förum ekki á þriðjudaginn þangað, svo það verði ekkert vesen. Þetta er orðin svo skemmtileg umræða,“ sagði Ólafur og vísaði til þess er fresta varð leik ÍBV og Stjörnunnar á fimmtudag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×