Fyrsti mótherjinn er Úkraína en leikið verður á tómum Ólympíuvellinum í Kænugarði. Strákarnir spiluðu ekki vináttuleik heldur æfðu saman í Frankfurt áður en haldið var til Úkraínu.
Sjá einnig:Heimir: Höldum áfram að gera það sem hefur virkað
„Þetta er búið að vera afslappað og æfingarnar góðar og snarpar. Það er verið að koma mönnum í gang aftur eftir langt og strembið sumar. Nú er verið að koma mönnum í gírinn fyrir komandi undankeppni,“ sagði Aron Einar.
Ísland verður án aðal markaskorarans, Kolbeins Sigþórssonar, sem er meiddur og getur ekki tekið þátt. Kolbeinn er algjör lykilmaður í uppspili íslenska liðsins og lang markahæstur í núverandi hóp.

„Auðvitað er vont að missa Kolbein úr liðinu. Hann er varafyrirliðinn og góður leikmaður sem stóð sig vel á EM. Svona er þetta bara en maður kemur í manns stað. Hinir framherjarnir okkar hafa unnið hörðum höndum að því að komast í liðið þannig nú fá þeir tækifæri til að berjast fyrir sæti í liðinu,“ sagði Aron Einarþ
„Samkeppnin er mikil í liðinu sem er heilbrigt. Ég veit það fyrir víst að hinir framherjarnir eru tilbúnir og klárir að spila vel fyrir liðið.“
Eins og svo margir aðrir blaðamenn vildu þeir úkraínsku vita hvernig í ósköpunum strákarnir okkar náðu þessum rosalega árangri á EM í sumar þar sem Ísland komst í átta liða úrslitin. „Það small eiginlega allt saman þegar við komum til Frakklands,“ sagði Aron Einar og sagði áhugaverða smásögu af einni æfingu rétt fyrir mót.
„Við vorum á æfingu fyrir EM þar sem við vorum að æfa varnarleikinn og eftir æfinguna kom einn af reyndustu leikmönnum varnarmönnum liðsins til mín og sagði að hann hefði fundið fyrir því að eitthvað hefði smollið.“
„Svo gekk allt okkur í haginn. Stuðningsmennirnir voru frábærir og leikmennirnir lögðu mikið á sig, meira að segja þeir sem spiluðu ekkert. Það er erfitt að útskýra þetta en þegar allir róa í sömu átt er hægt að gera góða hluti og það er nákvæmlega það sem gerðist,“ sagði Aron Einar Gunnarsson.