Hildur Helga Gísladóttir, formaður kjördæmaráðs Framsóknarflokksins, býst við um 200 manns á fundinn en um 330 eiga seturétt. Hún fagnar því ef smalað verður inn á fundinn vegna tillögunnar um að flýta flokksþingi. „Það er fagnaðarefni ef formenn félaga og aðrir sjá til þess að sitt fólk mæti á kjördæmaþingið.“
Þingmenn Framsóknarflokksins í kjördæminu, þau Eygló Harðardóttir, Willum Þór Þórsson og Þorsteinn Sæmundsson, telja réttast að flokksþing verði haldið fyrir næstu kosningar.
„Ég held að það sé að mörgu leyti æskilegt að flýta flokksþingi. Bæði til að skerpa á stefnunni fyrir kosningar og ég held að það sé bara gott fyrir forystuna að fá endurnýjað umboð og fara þannig inn í kosningar,“ segir Þorsteinn Sæmundsson. „Ég myndi styðja þá tillögu fljótt á litið. Það skiptir máli að ræða stöðuna og setja saman stefnuna,“ bætir Willum Þór Þórsson við.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins, greiddi atkvæði gegn því um síðustu helgi að flokksþing yrði haldið fyrir kosningar.

Komi til flokksþings þarf að kjósa um forystu flokksins og líklegt þykir að sitjandi formaður fái mótframboð á fundinum. Ekki hefur náðst í Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Framsóknarflokksins, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu