Van der Vaart, sem hefur m.a. leikið með liðum eins og Real Madrid, Ajax og Tottenham, hefur verið án félags síðan hann yfirgaf Real Betis eftir síðasta tímabil.
En nú er van der Vaart kominn í dönsku úrvalsdeildina. Ástin spilaði stærstan þátt í þeirri ákvörðun hans en van der Vaart elti kærustuna sína til Danmerkur.
Sú heitir Estavana Polman og er í hollenska landsliðinu í handbolta og spilar með Esbjerg í Danmörku.

Polman spilar sem áður sagði með Esbjerg og hún vonast til að kærastinn spili einnig fyrir félagið í framtíðinni.
„Það væri gaman en við verðum að sjá til hvað gerist,“ sagði Polman.
Einkalíf van der Vaarts, sem spilaði yfir 100 leiki fyrir Holland á sínum tíma, hefur verið mikið í umræðunni í gegnum tíðina.
Hann var giftur sjónvarpskonunni og fyrirsætunni Sylvie Meis í átta ár en þau eiga eitt barn saman. Árið 2010 komst van der Vaart að framhjáhaldi konu sinnar og þau skildu þremur árum seinna. Sylvie ásakaði van der Vaart seinna um að hafa beitt sig ofbeldi.
Van der Vaart byrjaði svo með Sabiu Boulahrouz, fyrrverandi eiginkonu Khalid Boularouz, félaga hans í hollenska landsliðinu. Van der Vaart yfirgaf Sabiu í fyrra þegar hún var ólétt. Í kjölfar sambandsslitanna opnaði Sabia sig í viðtali við hollenskt slúðurblað þar sem hún fór ekki fögrum orðum um van der Vaart.